Varðliðar umhverfisins útnefndir

03. maí 2017 - 16:57

Á föstudag útnefndi Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, nemendur í Ártúns- og Lýsuhólsskóla sem varðliða umhverfisins og veitti Endurvinnslunni umhverfisverndarverðlaunin Kuðunginn.

Nemendur í 6. bekk Ártúnsskóla stóðu fyrir verkefninu „Minna plast!" í samstarfi við Krónuna til að afla upplýsinga um plastnotkun og hvetja neytendur til að nota fjölnota poka. Umhverfisráðuneytið sagði verkefnið metnaðarfullt og lærdómsríkt og að það hefði áhrif langt út fyrir skólann.
Nemendur í Lýsuhólsskóla, Grunnskóla Snæfellsbæjar, settu upp sýningu í Salthúsinu á Malarrifi í samvinnu við þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Þeir öfluðu upplýsinga um staðinn með viðtölum, settu þær upplýsingar fram á fjölbreyttan hátt og nýttu náttúrulegt og endurunnið hráefni eins mikið og hægt var. 
Endurvinnslan hlaut svo Kuðunginn fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Fyrirtækið, sem var stofnað til að vernda umhverfið með því að endurvinna umbúðir, hefur beitt sér fyrir umhverfisvernd á ýmsan annan hátt og lagt metnað í að styðja við góð málefni.